Aðgerðaleysið
Sagan hefst á því að vegna Evróputilskipunar var Íslandi gert að koma á fót innlánatryggingakerfi og stofna sérstakan sjóð í því skyni, sem meðal annars yrði notaður til að greiða þeim til baka sem eiga sparnaðarreikninga í íslenskum banka ef hann skyldi fara í þrot. Í tilskipuninni er hins vegar heimilt að neita bönkum um að stofna útibú ef fjárhagsstaða þeirra þykir gefa tilefni til. Eins og menn þekkja var Landsbankanum þó leyft óátalið að safna gífurlegum fjárhæðum í erlendum útibúum á hinum svokölluðu Icesave-reikningum í Bretlandi og Hollandi og reyndar einnig Kaupþingi í Þýskalandi.
Í þessum efnum brást Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn, sem áttu að sinna þessu eftirliti, og síðast en ekki síst ríkisstjórnin sjálf. Aðgerðaleysi þessara þriggja aðila, en fyrst og fremst ríkisstjórnarinnar sjálfrar sem ber ábyrgð á hinum tveimur, er rótin að því hvernig komið er.
Mistökin
Þegar loksins var farið að greiða úr málinu voru samskipti við fjármálayfirvöld viðkomandi landa bæði ófagleg og ómarkviss. Margt er enn óljóst eða óupplýst hvað varðar fundi, bréf og samtöl íslenskra ráðherra og embættismanna sem kann að hafa haft áhrif á að Bretar beittu hryðjuverkalögum á íslenskan banka. Það sem þó er vitað er að skilaboðin frá ríkisstjórn Íslands, sérstaklega frá fjármálaráðherra og viðskiptaráðherra, voru misvísandi og klaufaleg. Viðskiptaráðherra virðist hafa fullvissað Breta lengi framan af um að íslenska ríkið ábyrgðist innstæðurnar á Icesave-reikningunum, með þeim afleiðingum að sífellt bættist á reikningana, en fjármálaráðherra var á öðru máli eins og fram kom í alræmdu símtali hans við Alistair Darling, fjármálaráðherra Breta. Þessi ósamstilltu og klaufalegu viðbrögð áttu eflaust sinn þátt í því að hryðjuverkalögunum var beitt gegn Íslendingum. Við þetta bætist svo að í kjölfar aðgerða Breta 13. október sl. stóðu íslensk stjórnvöld afar illa að því að miðla upplýsingum og halda á málstað Íslands, jafnt innanlands sem utan.
Uppgjöfin
Framan af höfðu ýmsir ráðherrar ríkisstjórnarinnar uppi stór orð um að ekki kæmi til greina að Íslendingar létu kúga sig til uppgjafar í deilunni um hina lagalegu og þjóðréttarlegu ábyrgð landsins gagnvart Icesave-reikningunum. Eins og lögfræðingar hafa bent á var hlutverk innlánatryggingarkerfa samkvæmt reglum ESB/EES-svæðisins aldrei að takast á við allsherjar bankahrun, heldur aðeins fall einstakra banka. Sama sjónarmið kemur fram í skýrslum og yfirlýsingum frá Seðlabanka Evrópu og framkvæmdastjórn ESB. Veigamikil rök hnigu því strax frá upphafi að því að íslenska ríkið bæri ekki ábyrgð á skuldum vegna Icesave-reikninganna umfram þá upphæð sem var til staðar í Tryggingarsjóði innstæðueigenda.
Hinn 16. nóvember gafst ríkisstjórnin í reynd upp í Icesave-málinu þegar skrifað var undir yfirlýsingu um svokölluð sameiginleg viðmið til lausnar deilunni. Með því var í reynd fallist á að Ísland væri ábyrgt fyrir allt að 700 milljarða króna reikningi. Á þessari stundu er með öllu óvíst hvaða eignir koma á móti þessari skuld og hvenær salan á þeim eignum gæti átt sér stað. Vaxtakostnaðurinn einn og sér af 700 milljarða króna skuld næmi líklega á bilinu 35-50 milljörðum króna á ári (miðað við 5-7% vextir). Það er svipuð upphæð og kostar að reka Landspítalann allan eða þrefaldan Háskóla Íslands. Almennt er nú talið að það sé fyrst raunhæft að hefja sölu á einhverjum eignum, þeim sem þá verða eftir, að 3-5 árum liðnum. Á meðan yrði þessi óheyrilega skuldasúpa vaxtaberandi og svo stæði út af endanlegur reikningur (skuldir umfram eignir) sem bjartsýnar spár telja að gæti orðið 150 milljarðar. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gerir hins vegar ráð fyrir því í sínum útreikningum, sem lagðir eru til grundvallar mati á skuldaendurgreiðslugetu þjóðarbúsins (substainability) að eignir fáist upp í helming skuldarinnar.
Blekkingaleikurinn
Síðasti kaflinn í sorgarsögu Icesave-málsins er leikritið sem sett var upp þegar ríkisstjórnin gat ekki viðurkennt það fyrir sjálfri sér og þjóðinni að hún var búin að gefast upp á málinu. Hinn 14. janúar síðastliðinn rann endanlega út fresturinn til að kæra til dómstóla hina upphaflegu ákvörðun um að beita Íslendinga hryðjuverkalögum. En í stað þess að segja þjóðinni heiðarlega og rétt frá því drap ríkisstjórnin málinu á dreif með því að tala um að koma málinu fyrir Mannréttindadómstól Evrópu í Strassborg. Þegar hafa sérfræðingar sagt að líklegt sé að Mannréttindadómstóllinn vísi slíku máli frá þar sem ekki var látið reyna áður til fulls á réttarúrræði í viðkomandi landi, þ.e.a.s. í Bretlandi. Það að fara nú að tala um að reyna að koma málinu fyrir Mannréttindadómstól Evrópu í Strassborg er því fullkominn fyrirsláttur og beinlínis óheiðarlegt að reyna að láta líta svo út að það komi í staðinn fyrir málshöfðun í Bretlandi.
Skuldin
Með því að falla fyrst frá því að fá úr því skorið hver raunveruleg ábyrgð Íslands er og nú síðast með því að heykjast á því að annaðhvort ríkið eða Landsbankinn, eða báðir aðilar, höfði mál vegna ákvörðunar breska fjármálaráðuneytisins að beita hryðjuverkalögum á Íslendinga, hefur ríkisstjórnin í reynd afsalað Íslendingum öllum lagalegum og réttarfarslegum möguleikum í málinu. Það eina sem enn er óútkljáð í Icesave-málinu er hvaða vaxtakjör íslenska ríkinu bjóðast, þ.e.a.s. hvar vaxtakostnaðurinn mun liggja á bilinu 35-50 milljarðar árlega. Um málið sjálft, þ.e.a.s. hvort Íslendingar þurfi raunverulega að taka á sig skuldirnar af Icesave-reikningunum, er ríkisstjórnin hins vegar hætt að deila.
Þó má segja að enn sé örlítil vonarglæta eftir í málinu því enn á Tryggingarsjóður innstæðueigenda eftir að taka við skuldunum og tryggingarupphæðirnar eru því formlega séð enn á ábyrgð viðkomandi ríkja. Eins og undirritaður lýsti yfir við atkvæðagreiðslu um málið í þinginu 5. desember síðastliðinn lítur þingflokkur Vinstri grænna á samninginn sem riftanlegan eða ógildanlegan nauðungarsamning. Undir þetta sjónarmið hafa nú tekið þeir Stefán Már Stefánsson lagaprófessor og Lárus L. Blöndal hæstaréttarlögmaður (í grein í Morgunblaðinu 8. janúar) með þeim rökum að samningurinn sé til kominn vegna þvingana frá ESB, sem hafi sett það sem skilyrði fyrir lántöku hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.
Í ljósi þessa er mesta örlagastundin í Icesave-málinu í raun enn eftir. Enn er hægt að afstýra stórslysi fyrir íslenska þjóð. Taki Tryggingarsjóðurinn hins vegar við skuldunum er ljóst að þá verður ekki aftur snúið: Þá hefur þjóðin endanlega verið skuldsett á grundvelli pólitískra þvingunarskilmála sem ríkisstjórnin hafði ekki dug í sér til að standa gegn. Stjórnarseta Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar er því að reynast þjóðinni dýrkeypt, í þessu sem öðru. En þessari vöru fæst ekki skilað, eins og sagt er, heldur virðist ríkisstjórnin ætla að sitja áfram, án þess að boða til kosninga, þar til það er orðið endanlegt og óafturkræft að skuldir vegna þessarar fjárglæfrastarfsemi lendi á þjóðinni og komandi kynslóðum.
Höfundur er alþingismaður og formaður Vinstri grænna.///////Þetta er eiginlega skyldulesning að kall skuli koma svona með þetta til að hræða allt og alla og í raun að verja sig öllu sem hægt er,það er svo að karlinn er klókur og ætlar þarna að hvít þvo sig algjörlega,en við bara spyrjum að leikslokum öll//Halli gamli
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.